Starfskenning þroskaþjálfa

Sameiginlegir þræðir í starfskenningu þroskaþjálfa eiga að endurspegla það sem þroskaþjálfar standa fyrir og hver grunnur og hugmyndafræði þroskaþjálfunar er. Þroskaþjálfar eru fagstétt sem sérstaklega hefur menntað sig til að starfa með fólki á öllum aldri sem býr við skerðingu. Starfskenning er bæði fagleg og persónuleg. Fagleg þar sem hún byggir á fagmenntuninni, siðareglum fagstéttarinnar og hugmyndafræðinni. Persónuleg þar sem hún byggir á gildismati, viðhorfum og reynslu.

Sérstaða þroskaþjálfa er annars vegar víðtæk og hagnýt þekking á sviði stefnumótunar, skipulags og framkvæmdar heildrænnar þjónustu og hins vegar einstaklingsmiðuð þjónusta, óháð aldri og aðstæðum.

Hugmyndafræði þroskaþjálfunar er grundvölluð í lögum, reglugerð og siðareglum þroskaþjálfa. Hún byggir m.a. á jafnrétti, virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannhelgi. Hver manneskja er einstök, allir eiga rétt til fullrar þátttöku á eigin forsendum í samfélaginu. Með þetta að leiðarljósi hafa þroskaþjálfar tekið þátt í að móta þjónustu og ryðja í burt hindrunum í samfélaginu í því skyni að bæta lífsskilyrði og lífsgæði fólks.

Með þroskaþjálfun er unnið á fræðilegan og skipulegan hátt í samstarfi við þjónustunotendur að því, að stuðla að jákvæðum viðhorfum, efla færni og auka skilning á aðstæðum fólks sem býr við skerðingar.

Þroskaþjálfun byggir á breiðum fræðilegum grunni sem grundvallast m.a. í uppeldis-, félags, heilbrigðis-, sálar- og siðfræðum. Starfshættir þroskaþjálfa miða að því að rannsaka og tileinka sér nýjustu stefnur og strauma með hagsmuni fólks að leiðarljósi. Þroskaþjálfar miðla af þekkingu sinni og eru ráðgefandi sérfræðingar í að móta og innleiða nýjungar í þjónustu.

Réttindabarátta og réttindagæsla er stór þáttur í starfi þroskaþjálfa. Stéttin hefur frá upphafi barist fyrir bættum kjörum fatlaðs fólks og rutt brautina til jafnra tækifæra og jafnréttis. Hlutverk þetta er skilgreint í reglugerð og siðareglum þroskaþjálfa.

Í störfum sínum koma þroskaþjálfar að stefnumótun og orðræðu á opinberum vettvangi og verða þannig mótandi afl í þróun jákvæðra viðhorfa til þjónustunotenda og starfa sinna.

Reykjavík 3. maí 2007

Þroskaþjálfun er lögverndað starf og starfar stéttin eftir lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 (samþykkt á Alþingi 2. maí 2012 og tóku gildi 1. janúar 2013) og reglugerð um menntun, réttindi og skyldur þroskaþjálfa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi nr. 1120/2012 (undirrituð af velferðarráðherra 11. desember 2012  og tóku gildi 1. janúar 2013)

Þroskaþjálfi skal þekkja lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn, málefni fatlaðs fólks, heilbrigðisþjónustu svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á.  Hann ber ábyrgð á þeirri upplýsingagjöf, fræðslu, aðstoð og ráðgjöf sem hann veitir. Enn fremur felst starf hans í að efla lífsgæði fatlaðs fólks og auka þátttöku þess í samfélaginu. Sjá nánar í reglugerðinni