Starfsdagar 2009
Vörðum leið að öflugu fag- og stéttarfélagi til framtíðar var yfirskrift starfsdaga Þroskaþjálfafélags Íslands sem haldnir voru 29. og 30. janúar. Þessa tvo daga var unnið markvisst að stefnumótun félagsins sem fag- og stéttarfélag bæði með erindum og hópavinnu.
Dagskráin hófst eftir hádegi á fimmtudag og voru fjögur erindi flutt þann dag.
Jóhann Björnsson heimspekingur flutti erindi sem bar yfirskriftina Heimspekilegir þroskaþjálfar. Hvað er nú það? Jóhann kom meðal annars inn á mikilvægi þess að efla faglegan þroska, rýna til gagns og spyrja sig spurninga um það sem verið að gera hverju sinni.
Halldóra Kolka B. Ísberg og Ása Rún Ingimarsdóttir þroskaþjálfanemar fjölluðu um Sýn þroskaþjálfanema á félagið. Þær töldu lítil tengsl vera milli skóla og félagsins og að efla þurfi aðgang þroskaþjálfanema að félaginu.
Arnheiður Jónsdóttir þroskaþjálfi hélt erindi sem bar yfirskriftina Gildi stéttarfélagsins fyrir þroskaþjálfa á landsbyggðinni. Hjá Arnheiði kom fram að þroskaþjálfar sem starfa á landsbyggðinni skorti faglegan stuðning þar sem þeir eru oft eini þroskaþjálfinn á stóru svæði. Að hennar mati getur heimasíðan, fjarfundabúnaður og önnur tækni orðið stoð í faglegu starfi.
Síðasta erindi dagsins hélt Salvör Gissurardóttir lektor í upplýsingatækni við menntavísindasvið HÍ, Félagsnet og netheimar. Salvör rakti mikilvægi tækninnar í þágu stéttarinnar og möguleika á innbyrðis samskiptum í dreifðum byggðum landsins.
Á föstudagsmorgni hófst dagskráin með erindinu Leiðir að lausnum – er hann til þessi kassi? Ragnheiður Eiríksdóttir nýsköpunar- og þróunarstjóri BHM leiddi okkur þar í gegnum aðferðir til að nálgast efni út frá ólíkum sjónarhornum og hvað er hægt að hafa í huga þegar farið er í hugmyndavinnu sem var gott veganesti fyrir hópavinnuna.
Þátttakendum var skipt í 8 hópa sem unnu að eftirfarandi þremur verkefnum:
1. Almenn virkni félagsmanna og þátttaka þeirra.
2. Ímynd félagsins, hvaða leiðir á félagið að fara til að bæta ímynd félagsins? Hvernig á
félagið að vinna að hlutverki sínu sem hagsmunagæsluaðilar?
3. Upplýsingamiðlun og útgáfa: tækifæri, markmið og leiðir. Hvaða tækni eigum við að
nýta okkur og með hvaða hætti til að styrkja félagið?
Framundan er úrvinnsla starfsdaga og nú þegar eru þrír hópar úr trúnaðarmannaráði auk fagráðs að vinna úr niðurstöðum þeirra.
Við þökkum fyrirlesurum, þátttakendum og öðrum þeim er lögðu starfsdögunum lið kærlega fyrir.
Fagráð