Lög Þroskaþjálfafélags Íslands

I. KAFLI
Nafn og tilgangur
1. gr.
Félagið heitir Þroskaþjálfafélag Íslands, skammstafað ÞÍ. Félagssvæði þess er landið allt. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er stéttarfélag skv. lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
 
2. gr.
Tilgangur félagsins er:
1. Að efla stétt þroskaþjálfa, stuðla að samvinnu þeirra og samstöðu og gæta hagsmuna þeirra.
2. Að semja um kaup og kjör þroskaþjálfa og standa vörð um réttindi þeirra.
3. Að styrkja stéttarvitund þroskaþjálfa og efla áhuga þeirra á öllu er að starfi þeirra lýtur.
4. Að efla og standa vörð um menntun þroskaþjálfa, grunnmenntun, framhaldsmenntun, símenntun og endurmenntun.
5. Að hafa samstarf við félög þroskaþjálfa og annarra hliðstæðra stétta erlendis.
6. Að gæta hagsmuna fatlaðs fólks, stuðla að framförum í málefnum þeirra og beita sér fyrir auknum skilningi á stöðu þeirra og þörfum.
7. Að semja við stjórnvöld um framlög vegna sjálfstætt starfandi þroskaþjálfa.
 
II. KAFLI
Aðild að félaginu og úrsögn
 
3. gr.
Rétt til að sækja um að aðild að félaginu eiga:
  • Þroskaþjálfar sem hlotið hafa starfsleyfi á Íslandi og greiða stéttarfélagsgjöld til félagsins.
  • Þroskaþjálfar sem fá lífeyri/eftirlaun halda félagsréttindum en greiða ekki félagsgjöld. Þeir hafa ekki ákvörðunarvald um kjara og samningamál.
  • Rétt til fagaðildar að félaginu eiga:
    Þroskaþjálfar sem hlotið hafa starfsleyfi á Íslandi og greiða faggjöld. Þeir hafa ekki ákvörðunarvald um kjara og samningamál.
  • Þroskaþjálfanemar geta orðið aukafélagar og hafa tillögurétt og málfrelsi en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.
 
4.gr.
Hægt er að skrá sig í og úr félaginu skriflega eða á heimasíðu. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til stjórnar og telst viðkomandi genginn úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn hefur borist enda sé hann skuldlaus við félagið. Greiði fagfélagar eigi tvær greiðslur til félagsins, missa þeir félagsréttindi sín og þar með kosningarétt og kjörgengi. Uppgjör á skuld eða samkomulag þar að lútandi leiðir til fullra fagaðildar að nýju.
 
III. KAFLI
Stjórn félagsins
 
5. gr.
Stjórn félagsins skipa sjö menn sem kosnir eru til tveggja ára í senn. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum og kýs úr sínum hópi ritara og gjaldkera. Stjórnarmenn skulu vera með stéttarfélagsaðild að Þroskaþjálfafélagi Íslands. Ef stjórnarmenn, aðrir en formaður eða varaformaður, gerast fagaðilar á kjörtímabilinu, er þeim heimilt að sitja í stjórn fram að næsta aðalfundi. 
 
6. gr.
Stjórn fer með málefni félagsins milli aðalfunda, hefur eftirlit með því að lögum þess, samþykktum og samningum sé framfylgt og er í forsvari fyrir félagið út á við. Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Ritari skal skrá fundargerðir (gjörðarbók) yfir stjórnar- og félagsfundi. Gjaldkeri annast sjóðgæslu félagsins og hefur umsjón með fjármálum þess. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála á stjórnarfundum. Ef atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði formanns úrslitum. Stjórn er heimilt að skipa nefndir eða starfshópa til að sinna ákveðnum verkefnum.
 
IV. KAFLI
Aðalfundur
 
7. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda á tímabilinu 1. mars til maíloka ár hvert. Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram rafrænt í fjarfundi eða sem bæði stað- og fjarfundur og skal þess þá getið í fundarboði. Fara þá rafrænt fram atkvæðagreiðslur, samþykktir og slíkt sem jafnan færi fram skriflega. Aðalfund skal auglýsa á heimasíðu félagsins og boða með tölvupósti þeim sem hafa netfang skráð í félagaskrá en öðrum og þeim sem þess óska sérstaklega skal sent skriflegt fundarboð. Fundarboð skal sent félagsmönnum a.m.k. þrem vikum fyrir aðalfund ásamt lagabreytingartillögum og tillögum kjörnefndar og miða skal við dagsetningu tölvupósts eða póststimpils. Í aðalfundarboði skal vera:
 
  1. Dagskrá aðalfundar.
  2. Tillögur um lagabreytingar ef einhverjar eru.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Afl atkvæða ræður á aðalfundi, sbr. Vlll (áttunda) kafla félagslaganna. Aðalfundi er heimilt að vísa málum til allsherjar atkvæðagreiðslu.
 
8. gr. Þessi eru skyldustörf aðalfundar:
  • a) kosnir starfsmenn fundarins
  • b) formaður leggur fram skýrslu stjórnar
  • c) gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins til afgreiðslu og gerir grein fyrir fjárhag þess
  • d) lagabreytingar
  • e) kosning í stjórn, nefndir og ráð
  • f) kosning tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins og eins til vara
  • g) lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs og félagsgjöld og framlag í kjaradeilusjóð ákveðið.
  • h) önnur mál
Fundarstjóri skal sjá um að aðalfundur fari fram eftir ákvæðum þessara laga og almennum fundarsköpum.
Þremur mánuðum fyrir aðalfund skal kallað eftir framboðum til formannsembættis og lýkur framboðsfresti sex vikum fyrir aðalfund. Þegar framboðsfresti lýkur skulu frambjóðendur fá fjórar vikur til að kynna sig. Að þeim tíma liðnum fer fram rafræn kosning meðal allra félagsmanna séu fleiri en einn í kjöri. Tilkynna skal um niðurstöðu kosninga  á aðalfundi. Kallað er eftir framboðum til trúnaðarstarfa félagsins minnst þremur mánuðum fyrir aðalfund og skulu framboð hafa borist kjörnefnd a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund og upplýsingar um frambjóðendur sendar út með aðalfundarboði. Kjósa skal skriflega á aðalfundi, séu fleiri í kjöri en kjósa á. Heimilt er að kjósa rafrænni kosningu í stjórn og fastanefndir félagsins séu fleiri í framboði en kjósa á. Rafræn kosning hefst þá viku fyrir aðalfund og stendur yfir í viku.

 
V. KAFLI
Fjármál
 
9. gr.
Aðalfundur ákveður félagsgjöld starfandi þroskaþjálfa sem ákveðið hlutfall af launum. Aðalfundur ákveður einnig félagsgjald þroskaþjálfa sem eiga fagaðild að félaginu með einn gjalddaga eða fleiri. Þeir þroskaþjálfanemar sem ganga í félagið greiða ekki félagsgjöld. Félagar sem fá lífeyri/eftirlaun skulu undanþegnir greiðslu félagsgjalda.
 
VI. KAFLI
Félagsmál
 
10. gr.
10.1 Nefndir
Nefndir starfa á grundvelli laga ÞÍ og hlíta eigin starfsreglum sem skulu staðfestar af stjórn ÞÍ. Kosið skal í nefndir og ráð á aðalfundi nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Nefndir starfa á ábyrgð ÞÍ. Félagið ber fulla og óskoraða fjárhagslega ábyrgð á störfum nefnda. Nefndum er óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga nema með heimild stjórnar ÞÍ. Stjórn félagsins skal halda samráðsfund einu sinni á ári með formönnum nefnda. 
 
10.2 Fagráð
Í félaginu skal starfa sjö manna fagráð sem kosið er í á aðalfundi til tveggja ára í senn, fjóra annað árið (jöfn tala) og þrjá hitt árið (oddatala). Hlutverk fagráðs er að vinna að menntamálum þroskaþjálfa, sjá um fræðslufundi, fylgjast með þróun og nýjungum í starfinu og kynna þær félagsmönnum.
 
10.3 Útgáfuráð
Félagið skal standa að útgáfu, sjálfstætt eða í samráði við aðra aðila. Aðalfundur kýs í útgáfuráð sex félagsmenn til tveggja ára, þrjá hvort ár. Sjöundi nefndarmaðurinn er tilnefndur af Rannsóknarsetri í þroskaþjálfafræðum. Hlutverk útgáfuráðs er að sjá um útgáfustarfsemi á vegum félagsins.
 
10.4 Laganefnd
Í laganefnd skulu starfa fimm félagsmenn til tveggja ára í senn, kjósa skal tvo annað árið (jöfn tala) og þrjá hitt árið (oddatala). Laganefnd vinnur að og gerir tillögur að lagabreytingum.
 
10.5 Kjörnefnd
Í félaginu skal starfa fimm manna kjörnefnd er annist undirbúning og framkvæmd kosninga fyrir næsta aðalfund, atkvæðagreiðslu vegna kjarasamninga og aðrar atkvæðagreiðslur sem stjórn felur nefndinni að annast. Kjörnefnd leitar eftir framboðum í stjórn, nefndir, og ráð á vegum félagsins. Nýjum framboðum í stjórn skulu fylgja meðmæli a.m.k. tuttugu félagsmanna. Tillögur kjörnefndar um félagsmenn í stjórn, nefndir og ráð skulu liggja fyrir a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund.
 
10.6 Siðanefnd
Í félaginu skal starfa þriggja manna siðanefnd, tilnefndir af stjórn félagsins, á aðalfundi, þrír aðalmenn og þrír varafulltrúar. Tilnefnt til þriggja ára í senn. Endurtilnefning er heimil, en þó ekki lengur en tvö tímabil samfellt. Siðanefnd starfar sjálfstætt og óháð stjórn eða öðrum nefndum félagsins. Nefndin starfar eftir siðareglum Þroskaþjálfafélags Íslands og gildandi starfsreglum. Hlutverk siðanefndar er: 
  • Að vera félagsmönnum til ráðgjafar og leiðbeiningar um siðamál.
  • Að taka við og fjalla um kvartanir um brot félagsmanna á siðareglum.
  • Að úrskurða um réttmæti kvörtunar með hliðsjón af lögum og siðareglum félagsins.
  • Vinna að tillögugerð að endurskoðun á siðareglunum, m.a. með því að safna dæmum um siðferðileg álitamál sem upp koma í starfi þroskaþjálfa.
  • Nefndin skal gefa félagsmanni færi á að skýra og verja mál sitt.

Úrskurður er gildur, standi meirihluti siðanefndar að honum. Unnt er að áfrýja úrskurði siðanefndar til stjórnar Þroskaþjálfafélags Íslands sem þá skipar sérstaka siðanefnd sem úrskurðar í málinu samkvæmt gildandi siðareglum og verklagsreglum siðanefndar.

Grein 10.6 gildir einnig um þessa sérstöku siðanefnd.
 
10.7 
Siðareglum þroskaþjálfa verður ekki breytt nema á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um breytingu siðareglna skulu hafa borist til umfjöllunar hjá stjórn ÞÍ sem sendir tillögur að breytingum til laganefndar fyrir 1. janúar og þær sendar félagsmönnum ásamt fundarboði aðalfundar. Siðanefnd setur eigin starfsreglur og ber þær undir stjórn ÞÍ.
 
11.gr.
11.1 Sjóðir
Sjóðir á vegum félagsins eru: Vísindasjóður og kjaradeilusjóður auk sjóða BHM

11.2 Vísindasjóður
Stjórn vísindasjóðs skipa þrír félagar sem tilnefndir eru af stjórn félagsins. Stjórn vísindasjóðs starfar samkvæmt reglum sjóðsins sem sjóðsstjórn setur og stjórn ÞÍ staðfestir.
 
11.3 Kjaradeilusjóður
Stjórn kjaradeilusjóðs skipa þrjá félagar og skulu þeir hafa stéttarfélagsaðild í Þroskaþjálfafélagi Íslands. Gjaldkeri ÞÍ hefur fasta setu í stjórn sjóðsins, en aðra skipar stjórn Þ.Í.
 
12.gr
Félagsfundi skal boða eins oft og stjórninni þurfa þykir og er henni skylt að boða til félagsfundar ef 10% félagsmanna æskja þess skriflega.
 
13. gr.
Félagið skal standa að blaðaútgáfu, sjálfstætt eða í samráði við aðra aðila.
 
14.gr
Í október annað hvert ár (oddaár) skal kjósa trúnaðarmenn. Á vinnustöðum þar sem starfa fimm þroskaþjálfar eða fleiri, er þeim heimilt að velja einn trúnaðarmann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess vegna starfsmanna á vinnustöðum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda. Val trúnaðarmanna skal tilkynna vinnuveitenda og stjórn félagsins þegar í stað á þar til gerð eyðublöð.
 
VII. KAFLI
Trúnaðarmannaráð
 
15. gr.
Í trúnaðarmannaráði skulu eiga sæti trúnaðarmenn ásamt stjórn félagsins. Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að undirbúa kröfugerð og kjarasamninga og vera stjórn til ráðgjafar um stærri mál. Trúnaðarmannaráð kýs samninganefnd sem ásamt formanni og varaformanni félagsins fer með forsvar þess við gerð kjarasamninga. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar.
 
VIII. KAFLI
Lagabreytingar og félagsslit
 
16. gr.
Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til laganefndar fyrir 1. febrúar og þær sendar félagsmönnum ásamt fundarboði aðalfundar.
 
17. gr.
Komi fram tillaga um að leggja félagið niður, skal hún sæta sömu meðferð og sem tillaga um lagabreytingar sbr. 15. gr.
 
Lög þessi öðlast þegar gildi við samþykkt þeirra.
 
Lög þessi voru fyrst samþykkt þann 24. september 1996.
Breytt 1997
Breytt 1998
Breytt 1999
Breytt 2000
Breytt 2002
Breytt 2003
Breytt 2005
Breytt 2007
Breytt 2009
Breytt 2010
Breytt 2011
Breytt 2014
Breytt 2017
Breytt 2018
Breytt 2019
Breytt 2020
Breytt 2021