Tryggja skal rétt nemenda með sérþarfir til skólavistar í framhaldsskólum!

Þroskaþjálfafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við að yfirvöld menntamála hafi ekki tryggt að allir nemendur með sérþarfir sem sækja um í framhaldsskólum landsins fái skólavist, eins og þeir eiga rétt á. Félagið hvetur yfirvöld til að lagfæra þetta strax þannig að allir nemendur með sérþarfir sem sótt hafa um í framhaldskólum nú á haustönn fái þar inni. Yfirvöld verða að sýna í verki að menntun sé fyrir alla á Íslandi, ekki eingöngu suma!

Nemendur sem eru með sérþarfir hafa yfirleitt fengið sértækan stuðning í ýmsu formi allt frá leikskólaaldri. Samkvæmt íslenskum lögum er skólaskylda í grunnskólum og er einstaklingum frá 6–16 ára aldurs skylt að sækja þá. Yfirvöld menntamála vita um fjölda nemenda með sérþarfir og er fulljóst að margir þeirra sækja um í framhaldsskólum líkt og aðrir nemendur. Allir þeir sem lokið hafa grunnskólanámi eða náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla.

Mennta- og menningarmálaráðherra ásamt skólayfirvöldum verða að gera sér grein fyrir því að til að tryggja menntun fyrir alla, samkvæmt stefnu um skóla án aðgreiningar, þarf að veita skólum nægilegt fjármagn til að þeir geti tekið á móti nemendum með sérþarfir. Einnig verða yfirvöld að átta sig á því að til að markmiðið um skóla án aðgreiningar náist þurfa fleiri fagstéttir en eingöngu kennarar að koma að málum. Þroskaþjálfar hafa menntað sig sérstaklega til að starfa með hluta þeirra nemenda sem þar stunda nám í skólum landsins, jafnt í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Í skólum landsins á að virkja áhuga hvers og eins nemenda. Mikilvægt er að finna leiðir til að efla námsgetu ólíkra nemenda, útbúa á sértæk námsögn og aðlaga námsefni að hverjum og einum. Ekki má heldur gleyma því að skóli er ekki eingöngu staður þar sem nemendur læra bóklegar greinar, heldur líka vettvangur þar sem einstaklingar þroska félagslega hæfni sína og mynda félagsleg tengsl. Slíkt er öllum mikilvægt, jafnt nemendum með sérþarfir sem öðrum nemendum.