Svar óskast!

Í fjölmiðlum á föstudag fullyrti fjármála- og efnahagsráðherra að samninganefnd ríkisins hefði fullt umboð til samninga við BHM. Í gær steig  forsætisráðherra fram og sagði að ekki verði samið við BHM fyrr en samið hafi verið á almennum vinnumarkaði.

 

Á morgun verða sjö vikur liðnar frá upphafi verkfallsaðgerða BHM. Á viðræðufundum í liðinni viku virtist sem viðræður væru loks að hefjast af alvöru. Í því ljósi komu yfirlýsingar forsætisráðherra sem þruma úr heiðskíru lofti.

 

Samninganefnd BHM átti í dag fund með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara. Fundinn sátu formenn félaganna 17 sem standa að sameiginlegum verkfallsaðgerðum BHM.

Þar kom skýrt fram að ummæli forsætisráðherra hefðu sett viðkvæmar kjaraviðræður í uppnám. Því fór formaður samninganefndar ríkisins af fundinum með það verkefni að fá svör við því hvort samninganefndin hefði umboð til að gera sjálfstæðan kjarasamning við BHM.