Staða barna og ungmenna með tal- og málþroskafrávik

Rannsóknarstofa um þroska, mál og læsi vinnur að úttekt á stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskafrávik að beiðni Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Rannsóknin er gerð að frumkvæði Menntamálanefndar Alþingis.

Útbúinn hefur verið rafrænn spurningalisti sem ætlað að afla nauðsynlegra upplýsinga um stöðu íslenskra barna og ungmenna með málþroskafrávik og þau úrræði og þjónustu sem þeim bjóðast. Spurt er um þjónustu, ábyrgð og skiptingu fjármagns í hjá ríki annars vegar og sveitarfélögum hins vegar. Þess er vænst að niðurstöðurnar nýtist í stefnumótun um hvernig best verði komið til móts við þarfir þessa hóps í bráð og lengd.

Á Íslandi er áætlað að um 200-500 börn í hverjum árgangi þurfi aðstoð vegna tal- og/eða málþroskafrávika. Afleiðingar þessara erfiðleika geta verið mjög alvarlegar fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið. Vandinn lýsir sér í því að á leikskólaaldri lærir barnið ekki orðaforða, málfræði og setningafræði og myndun og notkun hljóða á sama hraða og jafnaldrar. Eins lærir það ekki á sama hátt og jafnaldrar, hvernig á að nota málið sér til framdráttar og til samskipta. Þegar barnið er komið á grunnskólaaldur geta málþroskaerfiðleikarnir valdið erfiðleikum við að læra lestur og textagerð, sem síðar getur leitt til námserfiðleika, félagslegrar einangrunar og erfiðleika með hegðun. Á unglingsárum getur tal- og/eða málhömlun, valdið erfiðleikum með að ljúka skólanámi, fá vinnu og jafnvel að eignast maka.

Hópurinn er mjög fjölbreyttur og einkenni hvers og eins mjög misjafnlega alvarleg.

Rannsóknir síðari ára hafa sýnt að hægt er að grípa inní ferlið og hjálpa þessum hóp. Mestan árangur ber að byrja snemma. Leggja þarf áherslu á að greina veikleikana og á markvissan hátt þjálfa börnin á þeim sviðum, eins er mikilvægt að átta sig á styrkleikum barnanna og stuðla að því að þau njóti sín.

Flestir læra að skilja og nota tungumálið án fyrirhafnar en ákveðinn hópur barna þarf sérhæfða aðstoð til að ná tökum á máli, tali og tjáskiptum.

Spurningalistinn er sendur til breiðs hóps fólks sem á einn eða annan hátt tengist þessum málaflokki, m.a. þroskaþjálfa.

Þroskaþjálfar hafa mikil áhrif á möguleika barna og ungmenna með tal- og málþroskafrávik til að þroskast, ná árangri í námi og að taka virkan þátt í samfélaginu þegar þau fullorðnast.

Könnunin er send til allra félaga í Þroskaþjálfafélaginu og eru þeir félagsmenn sem vinna með börnum og ungmennum með málþroskafrávik, beðnir um að taka þátt.

Afar mikilvægt er að fá upplýsingar og ábendingar frá sem flestum. Við vonum að sem flestir félagar í Þroskaþjálfafélagi Íslands leggi okkur lið og stuðli þannig að því að leggja grunn að enn betri og skilvirkari úrræðum og þjónustu en nú er völ á.

Að rannsókninni standa Dr. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor; Dr. Jóhanna Einarsdóttir, lektor; Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur og Marta Gall Jörgensen, sálfræðingur.

Rafrænum aðgangi að spurningakönnuninni verður lokað: 21.11.2011.

Hér er tengill á könnunina:

http://mal-lestur.questionpro.com