Samningaviðræður BHM við ríki, sveitarfélög og Reykjavík

Sameiginleg áhersla er að þessu sinni á nauðsynlegar launaleiðréttingar, en eins og fram hefur komið hafa félagsmenn BHM hjá opinberum vinnuveitendum dregist verulega afturúr hvað launaþróun varðar.

Samninganefndir BHM við ríki, sveitarfélög og borgina komu saman til skrafs og ráðagerða í morgun þar sem mat var lagt á stöðuna eftir fyrstu fundi með viðsemjendum og línur lagðar um framhaldið.

 

„Það eru forréttindi að fá að fara fyrir þessum samstillta hópi“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, en hún fer fyrir viðræðunefnd BHM. Auk hennar er  viðræðunefndin skipuð framkvæmdastjóra BHM, Stefáni Aðalsteinssyni, lögmanni BHM, Ernu Guðmundsdóttur og varamaður er Georg Brynjarsson, hagfræðingur BHM.

„Félagsmenn BHM hjá hinu opinbera eru lykilstarfsmenn sem bera ábyrgð á faglegri framþróun og stefnumótun í þeim mikilvægu málaflokkum sem um ræðir. Viðsemjendur hljóta að vera meðvitaðir um nauðsyn þess að sporna við atgervisflótta, hvort sem er til annarra vinnuveitenda hérlendis eða úr landi, með því að gera gangskör í kjörum okkar fólks. Álag í starfi hefur aukist undanfarin ár, skattar og gjöld aukist gagnvart millistéttinni og tími til kominn að umbuna fólki fyrir þolgæði þessi erfiðu ár.“

Samninganefnd BHM skipa Stefán Aðalsteinsson, Guðlaug Kristjánsdóttir og Erna Guðmundsdóttir og til vara er Georg Brynjarsson.

Viðræðunefndin hefur nú kynnt viðsemjendum áherslur BHM í yfirstandandi kjaraviðræðum.

„Sameiginlegt viðfangsefni okkar og viðsemjenda er að finna færar leiðir að lausn þess vanda sem kjararýrnun háskólamenntaðra er. Það er beggja hagur að slík lausn finnist og við leyfum okkur að vera bjartsýn á framhaldið, enda voru fyrstu fundir almennt mjög ánægjuleg byrjun.“