Reykjavíkurborg kynnir yfirfærslu málefna fatlaðra

Undirbúningur hjá Reykjavíkurborg kynntur á stjórnarfundi Þroskaþjálfafélags Íslands15.06.2010


Stjórn Þroskaþjálfafélags Íslands bauð Maríu, verkefnisstjóra yfirfærslunnar á stjórnarfund félagsins til þess að kynna undirbúningsvinnuna og stöðu mála mánudaginn 14. júní 2010.

María kynnti skipulag verkefnisins á landsvísu sem og hjá Reykjavíkurborg og sagði frá stöðu mála. Gert er ráð fyrir því að yfirfærslan verði að veruleika þann 1. janúar 2011. Reykjavíkurborg byggir á reynslu sinni frá yfirfærslu þjónustu við geðfatlaða sem færðist yfir til borgarinnar þann 1. maí síðastliðinn sem og tilfærslu heimahjúkrunar frá ríki til borgar sem tók gildi þann 1. janúar 2009.  Reykjavíkurborg hefur fullan hug á að taka við þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík af metnaði og nýta tækifærið til þess að þróa heildstætt þjónustukerfi fyrir íbúa borgarinnar, jafnt fatlað fólk og aðstandendur þeirra sem og ófatlað fólk.

Þroskaþjálfafélag Íslands hefur áður lýst ánægju með fyrirhugaða yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Stjórn félagsins hefur þó áhyggjur af því hversu seint undirbúningur fer af stað hjá Reykjavíkurborg sem verður einn stærsti þjónustuaðili landsins í kjölfar yfirfærslunnar. Að mati félagsins er mikilvægt að borgin marki sér skýra stefnu í málefnum fatlaðra enda býr þar stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi. Stefnan þurfi ennfremur að taka til þess hve stórt hlutfall starfsmanna eigi að vera faglærður en Þroskaþjálfafélag Íslands hefur í áranna rás lagt áherslu á að þjónusta við fatlað fólk sé veitt af fagmenntuðu starfsfólki.

Á fundinum var ákveðið að efla samráð við Þroskaþjálfafélag Íslands og Reykjavíkurborgar vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til borgar.