Nýjar siðareglur og siðfræðileg viðmið samþykktar á aðalfundi 25. maí 2016

Umræða um endurskoðun siðareglna Þroskaþjálfafélags Íslands hefur marg oft verið til umræði innan siðanefndar allt frá 2008 og jafnvel fyrr. Ljóst þótti að annað hvort væri einu eða tveimur orðum breytt eða lagt í verulega skoðun reglnanna. Árið 2011 fór siðanefnd að ræða þörfina enn frekar og haust 2012 fór siðanefnd og fagráð félagsins að vinna að undirbúningi starfsdags þar sem þemað var siðareglur og siðferðilega umræða.

Til samráðs fékk nefndin til sín í upphafi:

  • Ástríður Stefánsdóttir læknir og heimspekingur, kom á fund með undirbúningshóp og  hélt þrjá fyrirlestra um siðferðileg mál hjá ÞÍ.
  • Sigurður Kristinsson heimspekingur, kom á fund með undirbúningshóp og flutti erindi á starfsdögum.

Segja má að starfsdagarnir ÞÍ í ársbyrjun 2013 hafi verið, þegar upp er staðið, undirstaða þeirrar miklu vinnu sem farið hefur í gerð þeirra siðareglna sem samþykktar voru á aðalfundi ÞÍ 25. maí 2016. Teknir voru saman þeir punktar og tillögur sem komu um breytingar á siðareglum stéttarinnar. Farið var yfir þær tillögur og athugasemdir sem komu fram og þeim komið fyrir í þeim texta sem nefndin hafði verið að vinna með væru þeir þættir ekki þegar fyrir.

Nefndin lagði einnig vinnu í þýðingu á sameiginlegum siðareglum sambærilegra stétta innan FO í Noregi. Þessar siðareglur mörkuðu einnig áframhaldandi vinnu nefndarinnar.

Samhliða þessari vinnu var farið að endurskoða starfsreglur siðanefndar og liggja þær að mestu fyrir.

Árið 2014 voru lagðar fram lagabreytingatillögur á lögum félagsins þar sem siðanefnd fannst þar vanta sterkari tengingu við siðanefnd / skipan og tilgang.

Á árinu 2015 var vinna siðanefndar komin það langt að kallað var eftir aðilum í rýnihóp (um 20 félagsmenn) til aðstoðar við gerð siðareglnanna. Þessi hópur kom 2x saman og einnig var á loka metrunum sendur texti til yfirlestrar.

Að lokinni vinnu með athugasemdir frá rýnihóp var haft samband við Siðfræðistofnun og segja má að siðareglurnar hafi þar farið tvisvar sinnum til yfirlestrar og samþykkis áður en að íslenskufræðingur lagði loka vinnuna í texta áður en hönnunar vinna og prentun átti sé stað í maí byrjun 2016.

Nýjar siðareglur Þroskaþjálfafélags Íslands voru því næst samþykktar með öllum greiddum atkvæðum á aðalfundi félagsins 25. maí 2016. Hér er einnig hægt að skoða þær á prentvænu formi.

Í vinnuhóp við undirbúning og gerð nýrra siðareglna félagsins á árunum 2012-2016 sátu Guðbjörg Guðmundsdóttir, Hrefna Sigurðardóttir, Signý Þórðardóttir og Árni Már Björnsson sem einnig var verkefnastjóri. Kann félagið þeim öllum bestu þakkir fyrir alla sína vinnu.