Ný samstarfsnefnd um launaupplýsingar og kjarasamninga

Undirritað hefur verið samkomulag um stofnun nýrrar samstarfsnefndar aðila vinnumarkaðarins vegna komandi kjarasamninga, árin 2013 og 2014.  Markmið með starfi nefndarinnar er að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og auka skilvirkni við gerð þeirra. 


Fréttatilkynning 11. júní 2013


Samkomulag um stofnun samstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga

Í  dag skrifuðu heildarsamtök launafólks og vinnuveitenda ásamt stjórnvöldum undir samkomulag um að setja á stofn „Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga.“ Nefndin er skipuð forystumönnum þeirra sem að samkomulaginu standa en ríkissáttasemjari stýrir starfi nefndarinnar. Nefndin er sett á fót með það að markmiði að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og auka skilvirkni við gerð þeirra. Nefndin mun taka saman upplýsingar til undirbúnings kjarasamninga árin 2013 og 2014 og verður starf hennar endurmetið fyrir árslok 2015.

Nefndin er stofnuð í kjölfar skýrslu vinnuhóps aðila vinnumarkaðarins um vinnumarkað og skipulag kjarasamninga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sem kynnt var í maí. Markmið úttektarinnar var að leita fyrirmynda í nágrannaríkjum Íslands sem gætu nýst við að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi þannig að þeir stuðli að stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti launa og samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Undanfarin misseri hafa heildarsamtökin á almenna og opinbera vinnumarkaðnum fjallað um leiðir  til að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Fjallað hefur verið um mikilvægi þess að mótuð verði sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin. Æskilegt sé að að mótuð verði sameiginlega stefna til að stuðla að vexti atvinnulífsins og efnahagslegum stöðugleika sem byggi á stöðugu gengi og lágri verðbólgu.

Skrifað var undir samkomulagið um stofnun samstarfsnefndarinnar hjá ríkissáttasemjara í dag af fulltrúum fjármála- og efnahagsráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands.

Nefndin mun eiga samstarf við Hagstofu Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Seðlabanka Íslands og aðra eftir atvikum, m.a. á grundvelli gildandi samstarfssamninga.

Aðilar samkomulagsins munu greiða fyrir því að nefndin fái aðgang að þeim gögnum sem hún telur sig þurfa til að uppfylla skyldur sínar. Sumt kann að varða trúnað og skal tekið tillit til þess í starfi nefndarinnar. Meginniðurstöður nefndarinnar skulu gefnar út opinberlega til almennra nota.

Nefndin hefur heimild til að ráða starfsfólk til að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin. Starfsaðstaða nefndarinnar og starfsfólks á hennar vegum verður hjá embætti ríkissáttasemjara.

Frekari upplýsingar veita:

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB,

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM,

Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri, fjármála- og efnahagsráðuneyti,

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ,

Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri, Sambands íslenskra sveitarfélaga,

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA og

Þórður Hjaltested, formaður KÍ.