Til hamingju með daginn

Kæru félagar

Gleðilegt sumar og til hamingju með daginn 1. maí  sem er alþjóðlegur frídagur verkafólks. Þroskaþjálfafélag Íslands hefur gengið undir sínum fána í 1. maí göngum frá stofnun félagsins. Á síðasta ári var ekki kröfuganga og ekki verður ganga í ár vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem hefur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag og um allan heim. Þess vegna höldum við daginn hátíðlegan með okkar nánustu og njótum þess að horfa á útsendingu frá sérstakri skemmti- og hvatningardagskrá heildarsamtaka launafólks í tilefni baráttudags verkalýðsins sem hefst kl. 21.00 í kvöld á RÚV.

Með hækkandi sól og bóluefni, förum við vonandi að fara inn í tíma þar sem við förum hægt og rólega að ná að lifa eðlilegra lífi og eiga stundir með vinum og stórfjölskyldu. Síðasta ár hefur verið erfitt og hafa þroskaþjálfar í búsetu, leik- og grunnskólum, framhaldskólum og víðar staðið vaktina ásamt öðru heilbrigðisstéttum og uppeldisstéttum og gert það af mikilli fagmennsku. Á síðasta ári hefur það verið svo augljóst hversu mikilvægu hlutverki þessar stéttir eru að sinna og hversu mikilvægu hlutverki þær sinna til að halda samfélaginu gangandi. Þess vegna er mikilvægt að meta störf þeirra og menntun þessara stétta til launa.

Það er nóg til er yfirskrift fyrsta maí í dag. Þannig minnum við á að samfélagið okkar hefur alla burði til að deila gæðunum þannig að enginn þurfi að líða skort.

Í dag  fögnum við líka stórum áfanga það er styttingu vinnuvikunnar. Í dag tekur styttingin gildi hjá öllum vinnustöðum ríkis, sveitarfélaga og stofnunum sem kostaðar eru að meirihluta af almannafé þar sem unnið er í vaktavinnu, en stytting í dagvinnu tók gildi síðustu áramót. Ekki þarf að hafa mörg orð um þann ávinning sem stytting vinnuvikunnar getur haft í för með sér fyrir vinnustaði hins opinbera og starfsfólk þess, en bætt vinnustaðamenning og betri nýting vinnutíma eru meðal helstu markmiða styttingarinnar. Með styttingu vinnuvikunnar verður vinnustaðurinn skilvirkari og um leið fjölskylduvænni og getur styttingin stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilum. Í öllum samningum sem skrifað var undir á síðasta ári er kveðið á um styttingu vinnuvikunnar  (fylgiskjal 1, 2 eða 3 allt eftir samningum) að hámarki fjórar stundir á viku og að lágmarki 65 mínútur á viku fyrir dagvinnufólk. Með hámarksstyttingu gefur félagsfólk eftir forræði yfir kaffitímum (35 mín á dag) en atvinnurekandi skal engu að síður tryggja neysluhlé yfir vinnudaginn. Tímafrestur fyrir innleiðingu hjá dagvinnufólki var 1. janúar 2021. Nú hafa flestar stofnanir ríkisin innleitt styttingu. Reykjavíkurborg hefu innleitt hámarksstyttingu heilt yfir, en ferlið reynist öllu seinlegra hjá sveitarfélögunum.

Finna má allar helstu upplýsingar inni á www.betrivinnutimi.is   bæði hvað varðar dag- og vaktavinnu.

Samkvæmt lögum félagsins verður aðalfundur Þroskaþjálfafélag Íslands haldinn 19. maí 2021.  Fundurinn verður fjarfund eins og staðan er í dag út frá sóttvarnareglum.

Þroskaþjálfar eru öflug stétt sem hefur náð langt, þar sem virkni og þátttaka félaganna hefur komið okkur áfram. Starfsvettvangur þroskaþjálfa er fjölbreyttur, þroskaþjálfar eru frumkvöðlar, taka forystu, miðla þekkingu sinni og reynslu í starfi með fólki. Hafa að leiðarljósi framþróun í velferðarmálum og er sérfræðiþekking þroskaþjálfa er mikilvæg.

Um leið og ég óska ykkur gleðilegs sumar og gleðilegan baráttudag, er mikilvægt að við  höldum út þessa flóknu tíma kæru félagar, gangi ykkur vel.

Kær kveðja

Laufey Elísabet Gissuardóttir, formaður ÞÍ