Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa - til hamingju með daginn!

Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa
Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa
Í dag, 2. október, er alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa. Þroskaþjálfar hafa kunnáttu og þekkingu til að veita fötluðu fólki og öðrum sem hafa skerta færni þann stuðning og þjónustu sem það þarfnast á hverjum tíma. Reynslan sýnir að þroskaþjálfar hafa mikilvægu hlutverki að gegna og þjóna fjölbreyttum hópum í samfélaginu.

Allir dagar eru okkar dagar og á hverjum degi eru þroskaþjálfar að aðstoða fólk við að öðlast ný tækifæri. Nú á tímum covid veirunnar hefur reynt á hversu lausnamiðuð stéttin er að útfæra alla þá þjónustu sem veita á, t.d. þegar notendur eru í einangrun vegna smita, í sóttkví vegna hugsanlegra smita, þroskaþjálfar verandi í svokallaðri B sóttkví, samþykkja að umgangast takmarkaðan hóp fólks til að minnka líkur á að smit berist til þeirra einstaklinga sem þeir þjónusta o.s.frv.

Fólk er misviðkvæmt fyrir raski sem við getum svo sannarlega sagt að covid 19 hafi valdið. Það hefur verið jákvætt að að sjá hvað fagfólkið okkar er tilbúið að velta öllum steinum til að geta mætt notendum hvar sem stéttin þjónustar þá.
Hvetjum alla þroskaþjálfa, samstarfsfélaga og vinnuveitendur til að gefa stéttinni gott klapp í tilefni dagsins.