Yfirlýsing frá fjórum félögum heilbrigðisstétta innan BHM vegna breytinga á lögum um ávana- og fíkniefni.

Fjögur félög heilbrigðisstétta innan Bandalags háskólamanna (BHM) vilja koma eftirfarandi á framfæri:

Í kjölfar þess að frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla) var fellt á Alþingi hefur umræða um stöðu fólks sem notar fíkniefni og þurfa fyrst og fremst heilbrigðisþjónustu verið áberandi. Við undirrituð hörmum þá óvissu sem þessi viðkvæmi hópur fólks býr við á degi hverjum þar sem varsla neysluskammta er bönnuð samkvæmt lögum.

Gagnreynd þekking í nútímasamfélagi gefur ótvírætt til kynna að refsistefna skilar engu en viðheldur jaðarsetningu og kostar mannslíf. Það ætti því að vera forgangsmál að mæta heilsufars- og félagslegum vanda með aðstoð í fyrirrúmi. Það er mikilvægt að tekið verði á fíkniefnaneyslu sem heilbrigðisvanda með áherslu á fræðslu, endurhæfingu og stuðning í stað úrræða í dómskerfinu. Það er ljóst að kostnaðurinn fyrir samfélagið við að beita refsingum er umtalsverður og hefur víðtæk og slæm samfélagsleg áhrif.

Greiður aðgangur að skaðaminnkandi velferðarþjónustu bætir á hinn bóginn lífsaðstæður fólks í fíknivanda auk þess að minnka líkur á þeim smitsjúkdómum sem fylgja honum. Þekkt er að ríkjandi fordómar og glæpavæðing hindrar fólk í að leita sér aðstoðar hjá lögreglu, félagsþjónustu og í heilbrigðiskerfinu.

Við viljum hvetja stjórnvöld eindregið til að koma málefnum þessa viðkvæma hóps í nauðsynlegan farveg með mannúð og virðingu að leiðarljósi líkt og önnur Evrópulönd hafa gert með góðum árangri. Slíkt er siðferðislega rétt og öllum í samfélaginu til hagsbóta.

Reykjavík 7. júlí 2020,
Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands
Þóra Leósdóttir formaður Iðjuþjálfafélags Íslands
Tryggvi Guðjón Ingason formaður Sálfræðingafélags Íslands
Laufey Elísabet Gissurardóttir formaður Þroskaþjálfafélags Íslands