Aðildarfélög BHM óska eftir fundi við Samband íslenskra sveitarfélaga

Aðildarfélögum BHM hafa borist upplýsingar þess efnis að einhver sveitarfélög séu ekki að fara að greiða þær launahækkanir til félagsmanna aðildarfélaganna í samræmi við niðurstöður starfsmats. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Félögin skrifuðu undir samstarfsnefndarfundargerð 31. janúar sl. þar sem kveðið var á um að skila þyrfti öllum gögnum til sveitarfélaganna fyrir 7. febrúar til að hægt yrði að greiða út þann 1. mars. Tafir urðu á því og fengu sveitarfélögin ekki gögnin fyrr en 21. febrúar og gerðu þá öll stéttarfélög ráð fyrir að greitt yrði út samkvæmt niðurstöðu starfsmats í síðasta lagi 1. apríl 2019.

Stéttarfélögin gerðu ráð fyrir því að öll sveitarfélög í landinu hafi bolmagn til að keyra launagreiðslur miðað við nýjar forsendur á tæpum 40 dögum.

Kjarasamningar aðildarfélaga BHM við Samband íslenskra sveitarfélaga eru lausir nú um mánaðamótin. BHM telur það ámælisvert að stærsta atriði samningsins sé ekki frágengið þegar kjaraviðræður hefjast á ný. Hvorki vörpun né launaröðun er orðin ljós og því geta stéttarfélögin og Sambandið ekki kortlagt nýjustu launatölur en eru með launatölur frá árinu 2018.

BHM óskar, fyrir hönd aðildarfélaganna, eftir fundi með fulltrúum Kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga mánudaginn 1. apríl kl. 13 í Borgartúni 6. Þar þarf einnig að fara yfir nýjar dagsetningar varðandi félagsmenn í C hópi starfsmats.

Virðingarfyllst og með von um skjót viðbrögð,

F.h. BHM

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM