Nú er komið nóg!

Kæru félagar.

Hvers vegna erum við hér í dag? Hvers vegna stöndum við – BHM, BSRB og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga – fyrir sameiginlegum baráttufundi hér í Háskólabíói? Jú, það er vegna þess að við höfum verið samningslaus í 10 mánuði og erum ekki enn farin að sjá til lands! 

Og hvernig skyldi nú standa á því?

Við hjá BHM mættum vel undirbúin til samningaviðræðna þegar þær hófust síðastliðið vor. Kröfugerðirnar voru skýrar, raunhæfar og sanngjarnar. En viðsemjendur hafa ekki gefið færi á eðlilegu samtali um tillögur okkar og sjónarmið. Þvert á móti krefjast þeir þess að við afsölum okkur mikilvægum réttindum sem við höfum barist fyrir og samið um. Í 10 mánuði höfum við þannig þurft að heyja stöðuga varnarbaráttu. Þessi staða veldur okkur miklum vonbrigðum. Og framganga viðsemjendanna er auðvitað alveg óboðleg og fyrir neðan allar hellur.

Meginkrafa BHM er sú að menntun sé metin til launa þannig að ríki og sveitarfélög geti ráðið til sín og haldið í hæft starfsfólk. En þær hækkanir sem okkur eru boðnar fela beinlínis í sér gengisfellingu á menntun okkar félagsmanna. Það getum við ekki sætt okkur við.

Annað áhyggjuefni er að samningsréttur okkar er ekki virtur. Það er þrýst á okkur að samþykkja kjarasamninga sem gerðir eru annars staðar – í öðrum raunveruleika. Þetta getum við heldur ekki sætt okkur við. Samningsrétturinn er hornsteinn í starfsemi stéttarfélaga og sjálfur tilverugrundvöllur þeirra. Þennan rétt munum við aldrei gefa frá okkur.

Innan almannaþjónustunnar er viðvarandi óhóflegt álag á starfsfólki sem beinlínis ógnar heilsu þess. Það er með öllu óviðunandi að fólk í þessum störfum þurfi að fórna heilsu sinni. Stytting vinnuvikunnar er ein leið til að draga úr starfstengdu álagi. Það þarf að taka raunveruleg skref til styttingar vinnuvikunnar í þessari samningalotu, án launaskerðingar.

Í samningstilboðum sem byggja á fjögurra ára samningstíma felst mjög lítil kaupmáttaraukning – litla breytingu þarf í efnahagslífinu til þess að sú aukning verði að kaupmáttarrýrnun.

Í stuttu máli:

Við viljum fá raunverulegt samtal við viðsemjendur um kröfur okkar og sjónarmið.

Við viljum að áunnin réttindi okkar fólks séu virt.

Við viljum að menntun sé metin til launa.

Við viljum að samningsréttur okkar sé virtur.

Við viljum að störf í almannaþjónustu séu metin að verðleikum.

Og síðast en ekki síst, við viljum styttri vinnuviku og bætt jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Þetta eru allt sanngjarnar og eðlilegar kröfur.

Og þess vegna, kæru félagar, erum við hér í dag, samningslaus eftir 10 mánaða árangurslausar viðræður.

Nú er nóg komið!

Hingað og ekki lengra!

Kjarasamninga strax!