Niðurstöður Kjarakönnunar BHM

Niðurstöður Kjarakönnunar BHM

Frá blaðamannafundi BHM

Kjarakönnun BHM 2013

 • Launahækkanir innan BHM halda ekki í við launavísitölu
 • Kynbundinn launamunur dregst saman á milli ára
 • Endurgreiðslur námslána eru íþyngjandi

BHM kynnti í dag niðurstöður kjarakönnunar meðal félagsmanna fyrir árið 2013. Könnunin leiðir í ljós að launaþróun hélt ekki í við almenna launavísitölu. Þá kemur fram að kynbundinn launamunur dregst saman, þó mismunandi mikið eftir vinnustöðum. Rúmlega helmingur svarenda með námslán telur endurgreiðslu þeirra íþyngjandi eða verulega íþyngjandi.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM:
"
Þessar niðurstöður tala vissulega sínu máli. Í fyrsta lagi staðfesta þær að launaþróun okkar fólks hélt ekki í við meðaltalið í landinu á árinu 2013. Það er áhyggjuefni að hópur sem að meirihlutanum til er með meistaragráðu eða lengra nám fylgir ekki almennri launaþróun í landi sem þarf að reiða sig eflingu þekkingargeirans til að tryggja hagvöxt. Við hljótum að fagna jákvæðri þróun hvað varðar kynbundinn launamun, þetta er skref í rétta átt þótt við vildum að sjálfsögðu sjá muninn minnka hraðar. Námslánakerfið er síðan verkefni út af fyrir sig og þarfnast heildstæðrar endurskoðunar. Laun háskólamenntaðra eru of lág til að vega upp kostnað við öflun þekkingar eins og staðan er núna. Við getum ekki unað við það.”

Launaþróun hægari innan BHM
Á árinu 2013 voru launatekjur og starfstengdar greiðslur félagsmanna BHM að meðaltali 548 þúsund krónur á mánuði og hækkuðu þær að nafnvirði um 4,2% á milli ára. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 5,7% sem þýðir að launahækkanir á íslenskum vinnumarkaði voru umfram þær hækkanir sem félagsmenn BHM fengu. Meirihluti svarenda Kjarakönnunar BHM er með meistara- eða doktorsgráðu.

Kyndbundinn launamunur dregst saman
Launamunur kynja minnkaði um rúm þrjú prósentustig milli ára. Minnstur var launamunurinn hjá starfsfólki félagasamtaka og sjálfseignastofnana en mestur hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg. Sveitarfélög utan Reykjavíkurborgar eru jafnframt einu vinnustaðirnir þar sem launamunur hækkar milli ára og mælist 22%.

Leiðréttur kynbundinn launamunur innan BHM í heild lækkar um þrjú prósentustig, var 11,9% árið 2012 en 8,9% árið 2013.

Greiðslubyrði námslána íþyngjandi
BHM hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að námslánakerfið verði endurskoðað frá grunni. Í kjarakönnininni var spurt um ýmsa þætti sem tengjast endurgreiðslum námslána. Alls hafa 86% svarenda tekið námslán og af þeim eru 57% enn að greiða af lánunum. Rúmlega helmingur þess hóps telur endurgreiðslurnar vera íþyngjandi eða verulega íþyngjandi. Svör úr könnuninni benda til þess að 22% svarenda verði enn að greiða af námslánum þegar eftirlaunaaldri er náð. Konur eru lengur að greiða af námslánum en karlar sem mögulega má rekja til kynbundins launamunar, enda eru endurgreiðslur námslána tekjutengdar.

Aðferðarfræði

 • Tími könnunar: 13. mars - 28. apríl 2014
 • Netkönnun send til allra í aðildarfélögum BHM
 • Þátttakendalistar komu frá aðildar-félögum BHM
 • Um 40 spurningar í könnuninni
 • Maskína sendi 4 sinnum áminningu á tímabilinu
 • Alls 9.895 í þýði:
 • Af þeim svöruðu 5.345 (54,6%)
 • Svarhlutfall var hærra en 50% hjá 13 félögum af 25