Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa - vettvangur á tímamótum.
Þroskaþjálfar starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og fá starfsréttindi eftir 240 ECTS eininga háskólanám frá Embætti landlæknis. Stéttin hefur sérstaklega menntað sig til starfa með fötluðu fólki á öllum aldri. Hugmyndafræði fagsins byggist á virðingu fyrir mannréttindum, frelsi og sjálfsákvörðunarrétti. Þroskaþjálfar hafa það markmið í störfum sínum að styðja virka þátttöku í samfélagi án aðgreiningar. Réttindabarátta og réttindagæsla hefur alltaf verið stór þáttur í starfi þroskaþjálfans. Litið er á hverja manneskju sem einstaka og í samstarfi við hana er leitað leiða til aukinna lífsgæða.
Mikilvægt hlutverk í samfélaginu
Skortur er á þroskaþjálfum á Íslandi líkt og á Norðurlöndunum. Þetta er alvarleg staða – fyrst og fremst fyrir þá sem eiga rétt á að fá þjónustu frá þroskaþjálfum samkvæmt lögum og reglugerðum. Þroskaþjálfar starfa á fjölbreyttum vettvangi – svo sem á öllum skólastigum, í heilbrigðisþjónustu, í félagsþjónustu, á heimilum fólks og víðar – þar sem þörf er á fagfólki sem styður einstaklinga til aukins sjálfstæðis, þátttöku og betra lífs. Stéttin hefur áratugareynslu af baráttu fyrir jöfnum tækifærum og mannréttindum. Háskóli Íslands sem og stjórnvöld þurfa að leggjast á árar með að fjölga þeim sem útskrifast ár hvert með viðbótardiplómu til starfsleyfis í þroskaþjálfafræðum.
Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa er 2. október. Í ár bætist við sérstakt tilefni þar sem Þroskaþjálfafélag Íslands fagnar einnig 60 ára afmæli og í tilefni þess verður haldið málþing undir yfirskriftinni „Vettvangur á tímamótum“
Horft til framtíðar
Í dag líta þroskaþjálfar bæði um öxl og fagna þeirri vegferð sem farin hefur verið en jafnframt horfa þeir fram á veginn með bjartsýni og festu. Stéttin verður áfram mikilvægur hlekkur í að byggja upp manneskjulegra og réttlátara samfélag fyrir öll.
Þroskaþjálfafélag Íslands hvetur öll til að kynna sér starf og viðfangsefni þroskaþjálfa nánar m.a. með því að hlusta á hlaðvarpið „Þroskaþjálfinn“ en það er aðgengilegt á Spotify.