Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks - Vitundarvakning - horfum til framtíðar - málþing ÞÍ 2024

Þá fer senn að líða að málþingi Þroskaþjálfafélags Íslands sem að þessu sinni verður haldið 2. febrúar 2024 á Reykjavík Natura, Nauthólsvegi 52.

Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks markar tímamót þar sem nú er í fyrsta skipti sett fram heildstæð stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Efnið stendur þroskaþjálfum nærri en markmið áætlunarinnar er að fatlað fólk fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við annað fólk þegar kemur að menntun, búsetu, atvinnu og sjálfstæðu lífi. En um hvað snýst þessi áætlun og hver eru næstu skref? Eins og segir í yfirskrift málþingsins þá er markmið þess að vekja fólk til vitundar, ekki aðeins um áætlunina sjálfa heldur einnig þau málefni sem þar um ræðir og skipta máli þegar kemur að því að stuðla að sjálfræði og fullgildri þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Á málþinginu munu fulltrúar ólíkra hagaðila sem og þroskaþjálfar, sem tóku þátt í  vinnuhópum við gerð áætlunarinnar, fjallaum inntak áætlunarinnar og hvaða þýðingu hún hefur þegar horft er til framtíðar. Þá gefst gestum málþingsins jafnframt kostur á að eiga samtal við fyrirlesara um áætlunina í gegnum pallborðsumræður, en virkt samtal og samráð er mikilvægt til að stuðla að farsælli innleiðingu áætlunarinnar. 

Á meðal fyrirlesara verða:
Anna Klara Georgsdóttir, sérfræðingur hjá Velferðarráðuneytinu
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Laufey Elísabet Löve, lektor í fötlunarfræði við þroskaþjálfafræðibraut HÍ
Jóhanna Margrét Einarsdóttir, ráðgjafarþroskaþjálfi hjá Bergrisanum bs
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Fulltrúi frá Átaki, félags fólks með þroskahömlun
Fulltrúar þroskaþjálfa úr vinnuhópum um gerð landsáætlunarinnar

Dagskrá málþingsins er hægt að fylgjast með hér en málþingið stendur frá 8:30 – 16:00. Matur og kaffi er innifalið í skrásetningargjaldinu sem er 15.000 krónur. Happy hour verður svo á bar hótelsins eftir að málþingi lýkur.

Fundarstjóri verður uppistandarinn Vigdís Hafliðadóttir.

Skráning á málþingið er hafin og fer skráning fram með því að smella hér.  Staðfestingu á skráningu færðu um hæl í tölvupósti.

Þetta er kjörið tækifæri fyrir alla þroskaþjálfa til að kynna sér inntak landsáætlunarinnar, óháð starfsvettvangi. Þroskaþjálfar hafa löngum verið ákveðið breytingarafl þegar kemur að því að stuðla að framförum í málefnum fatlaðs fólks – það eru því spennandi tímar framundan!

F.h. fagráðs

Ólöf Haflína Ingólfsdóttir