Þroskaþjálfi í sérdeild
Foldaskóli auglýsir eftir þroskaþjálfa í sérdeild skólaárið 2025-2026. Um er að ræða 100% starf.
Foldaskóli er heildstæður grunnskóli þar sem lögð er áhersla á jákvæðan skólabrag og fjölbreytta kennsluhætti. Nemendur við skólann eru tæplega 500 en ásamt því að vera hverfisskóli nemenda í 1.-10. bekk í Foldahverfi er hann safnskóli á unglingastigi fyrir Hamra- og Húsahverfi. Við skólann er starfrækt Foldaver, sérdeild fyrir einhverfa.
Leiðsagnarnám og skapandi lærdómssamfélag einkenna skólann ásamt sterkri umhverfisvitund og heilsueflingu en skólinn tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli og fylgir grænum skrefum Reykjavíkurborgar. Umhverfi skólans býður upp á mikla möguleika þar sem hann er í nálægt við Grafarvoginn sem státar af fjölbreyttri náttúru og iðandi fuglalífi.
Einkunnarorð skólans eru: siðprýði – menntun – sálarheill
Í öllu starfi skóla- og frístundasviðs er unnið eftir Menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, þar sem leiðarljósin eru sköpun, jafnrétti, virkni, heilsuefling og þátttaka barna í skólastarfinu, aukið samstarf og fagmennska. Einnig er unnið eftir stefnumótun verkefnisins Betri borg fyrir börn og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Umsókn fylgi ferilskrá, menntunargögn og annað er málið varðar.
Vakin er athygli á stefnu Reykjavíkurborgar um jafnan hlut kynja í störfum og að vinnustaðir endurspegli það margbreytilega samfélag sem borgin er.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Annast kennslu og þjálfun nemenda
- Stuðla að velferð nemenda og veita þeim aðgang að fjölbreyttu námi þar sem unnið er út frá styrkleikum hvers og eins. Unnið er út frá TEACCH hugmyndafræðinni.
- Aðlaga nám og námsumhverfi fyrir nemendur með einhverfu og þroskafrávik
- Halda utan um gerð einstaklingsáætlana
- Halda utan um mál einstaka nemenda og sitja í þverfaglegu teymi
- Vinna að þróun skólastarfs með stjórnendum og öðru samstarfsfólki
Hæfniskröfur
- Leyfi til að nota starfsheitið þroskaþjálfi
- Farsæl reynsla af vinnu með einstaklingum með fjölþættan vanda
- Frumkvæði, sjálfstæð vinnubrögð og skipulagshæfni
- Góð samskiptafærni og sveigjanleiki í starfi
- Áhugi á að starfa í skapandi og metnaðarfullu umhverfi
- Kostur að viðkomandi hafi þekkingu á PECS tjáskiptaformi
- Góð kunnátta í íslensku
Frekari upplýsingar um starfið
Laun eru samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar og viðkomandi stéttarfélags
Starfshlutfall – 100%
Umsóknarfrestur – 19. október 2025
Nánari upplýsingar um starfið veitir Ólafía María Gunnarsdóttir í tölvupósti Olafia.maria.gunnarsdottir@reykjavik.is