Hvert stefnum við? Í tilefni að Alþjóðadegi fatlaðra

 

Hvert stefnum við ? Í tilefni að Alþjóðlegi degi fatlaðra

 

Dagurinn hefur verið haldinn 3. desember ár hvert frá því að sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir alþjóðlegu ári fatlaðra árið 1981. Markmið alþjóðlegs dags fatlaðra er að auka skilning á aðstæðum fatlaðra, baráttunni fyrir réttindum þeirra og fullri þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra.

Ég undirritaður spurði mig um daginn nokkurra spurninga er ég fékk í hendur á starfsstöð minni skýrslu frá Reykjavíkurborg, en sú skýrsla fjallaði um endurskipulagni á stuðningstímaúthlutun fyrir börn með fatlanir sem eru á leikskólaaldri. 

Í skýrslu þessari er eftirfarandi komið á framfæri við þá fagaðilla sem eru starfandi innan sérkennslu leikskólanna:

Þær breytingar verða gerðar að hver leikskóli fær úthlutað fjármagni fyrir 0,25% stöðugildi ábyrgðarmanns sérkennslu á hvert barn í stað 0,5% stöðugildum áður. Þetta fjármagn er eyrnamerkt leikskólanum fyrir stöðu ábyrgðarmanns sérkennslu til að sinna börnum með vægari málþroska, félagslega og tilfinningalega erfiðleika. Auka fjármagn sem skapast vegna þessara aðgerða verður sett í pott og verður úthlutað til leikskóla með mikla sérkennslu og til að mæta fjölda barna sem áður heyrðu undir 3ja fötlunarflokk (börn á gráa svæðinu) . Horft verður til sérkennsluþarfa leikskólanna þegar úthlutun fer fram ( nú á fyrstu dögum er það fallið ). Úthlutun verður endurskoðuð árlega. Að auki mun ákveðið fjármagn sem áður var í 2. og 3. fötlunarflokki bætast við þennan miðlæga pott.

Gott og blessað segi ég, en með þessu verður enn erfiðara að sækja um úthlutun á stuðningstúmum fyrir ákveðin hóp sem fellur undir 3 fötlunarflokk og eru það oft einstaklingarnir sem eru á þessu gráa svæði sem þurfa sinn stuðning.

Í flestum leikskólum hér á höfuðborgarvsæðinu er lögð áhersla á og unnið með snemmtæka íhlutun. Snemmtæk íhlutun er, eins og vitað er, vinna sem farið er af stað með strax og grunur um seinkun á þroska vaknar. Með snemmtækri íhlutun höfum við áhrif á þroskaferil barnsins, og unnið þá eftir einstaklingsnámskrá sem sett hefur verið upp fyrir einstaklingin. Inn í vinnunni snemmtækri íhlutun með einstaklingnum er sú vinna sem kemur fram í einstaklingsnámskránni eins og áður segir, ásamt ráðgjöf og eftirfylgni til foreldra barnanna. Með því að styrkja og styðja við fjölskylduna í þeirri vinnu sem við vinnum að eflir það einstaklinganna verulega eins og sést hefur á lífsgæðum þeirra margra með auknum stuðningi. Við verðum að gæta að hagsmunum þeirra og vera vakandi fyrir þörfinni fyrir slíkum stuðningi þó svo að barn mælist undir 70 eða yfir 70 á þroskaprófum.

Mér þætti það afar miður ef til þess kæmi að barn og einstaklingar, sem eru í umsjón fagaðila í leikskóla ss. þroskaþjálfa, missi stuðning sinn eða hann sér skertur til muna þegar þörfin er mikil og knýjandi.

Með snemmtækri íhlutun höfum við áhrif á þroskaferil barnsins með markvissum aðgerðum eins og einstaklingsnámskráin segir til um fyrir einstaklingin. Þá er einnig hægt að benda á þjóðhagslegan ávinning af snemmtækri íhlutun, hvað varðar grunnskólagöngu barnanna ásamt framtíðarhorfum. Mér þætti afar miður ef við sem störfumí sérkennslunni í leikskólum þyrftum að skera niður starfið vegna nýrra reglna sem ég sé að komi als ekki vel við þá einstaklinga sem á þurfa að halda stuðning.

Ég tel fækkun á stuðningstímaúthlutun vera mikil óvirðing og það að við sem störfum innan sérkennslu í leikskólum þurfum að grátbiðja um úthlutun með skýrslugerðum og auknum rökstuðningi til að bæta hag og vellíðan ásamt sjálfstæði einstaklinganna sem þurfa á sérkennslu halda er algjörlega út í hött .Þetta er skömm á kerfinu okkar.

Snemmtæk íhlutun er fyrirbyggjandi aðgerð sem er arðbær fjárfesting til framtíðar og snýst um velferð ungra barna með frávik í þroska, fjölskyldur þeirra og samfélagsins eins og ég hef bent hér á fyrir ofan.

Ég er þess fullviss að með snemmtækri íhlutun sé hægt að fyrirbyggja aukin þroskafrávik hjá börnum með skipulögðum aðgerðum. Með þeirri úhlutun, á stuðningstíma, sem börnunum er veitt núna er mikil skerðing og er ég afar ósáttur við sem þroskaþjálfi og hagsmunaaðilli þeirra barna sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.

Mjög er að börnunum og foreldrum vegið sem og starfinu í kringum þau með þeirri úthlutun sem okkur var birt með nýrri skýrslu. Með þessari úthlutun er ekki einungis verið að gera lítið úr einstaklingnum hinum „ fatlaða“ heldur einnig þeim stuðningsaðila sem komið hefur að starfinu.

Það er mín ósk  að sérkennslu úthlutunarteymið innan leikskólasviðsins í Reykjavíkurborgar endurskoði niðurstöðu sína og taki rökstuðning þennan sem gilda ástæðu fyrir fjölgun stuðningstíma fyrir börnin og endurskoði á ný þessa nýju reglugerð.

Leikskólarnir þurfa aukið fjarmagn og fjölgun stuðningstíma til að geta staðið undir væntingum foreldra og barna til þroskavænlegs lífs.  

Ágæta úthlutunarnefnd verum stolt af góðu starfi. Verum stolt af því að gæta hagsmuna einstaklinga sem þurfa aukna aðstoð. 

 

Friðþór Ingason

Þroskaþjálfi