Hvar liggja möguleikarnir?

Nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu - Ráðstefna í Hofi á Akureyri, dagana 4. - 5. júní, 2014


Íslenskt samfélag stendur á næstu árum og áratugum frammi fyrir krefjandi verkefnum á sviði velferðarþjónustu. Eldri borgurum mun fjölga verulega, nýir notendahópar koma fram á sjónarsviðið og kröfur til þjónustunnar taka á sig fjölbreyttari og víðtækari mynd. Þetta kallar síðan á sérhæfingu með aukinni samþættingu og góðri yfirsýn.


Til þess að bregðast við þessum aðstæðum hafa stjórnvöld víða um lönd leitað leiða til nýsköpunar og skoðað á hvern hátt unnt sé í meira mæli að beita tæknilegum lausnum í velferðarþjónustunni.
Einstaklingsbundnar tæknilausnir munu því fá aukið vægi í þjónustunni þar sem þær verða nýttar til að styðja við eða auka öryggi við athafnir daglegs lífs innan og utan heimilis. Tækninni hefur hingað til verið beint að eldri borgurum, einstaklingum með langvarandi sjúkdóma og fólki með fötlun. Stærri hópur en áður getur í dag nýtt sér þau tækifæri sem tæknin býður og í raun eru það spurningar um yfirsýn og þekkingu sem setja þróuninni takmörk. Stóra verkefnið er því að þróa þekkingu, miðla reynslu og nýta fjármuni þar sem þeir geta leitt til nýsköpunar og gæða í þjónustu við notendur.


Meginmarkmið ráðstefnunnar er að skapa aðstæður og upplifun þar sem ráðstefnugestir komast í snertingu við það sem efst er á baugi í nýsköpun og tækni í velferðarþjónustunni. Jafnframt að þeir geti öðlast vitneskju um hvar hægt sé að leita þekkingar og reynslu til að skapa árangursríkar lausnir í íslenskri velferðarþjónustu.
Á ráðstefnunni munu ráðherrar félags- og heilbrigðismála velta fyrir sér tækifærunum í velferðarþjónustunni og hvað þurfi til að nýta þau. Ráðstefnugestir munu fá glöggar upplýsingar um helstu stefnur og strauma í nýsköpun og tækni á Norðurlöndunum og sérstök kynning verður á innleiðingu nýsköpunar og tækni í Noregi.


Ráðstefnugestir munu eiga kost á örfundum með nýsköpunarfyrirtækjum, frumkvöðlum, opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum þar sem kynntar verða velferðarlausnir af ýmsu tagi.
Staða og tækifæri í nýsköpun og tækni á Íslandi verður síðan umfjöllunarefnið þar sem íslenskir fyrirlesarar munu nálgast viðfangsefnið út frá ýmsum sjónarhornum.


Í lok ráðstefnunnar mun félags- og húsnæðismálaráðherra kynna stefnu sína í nýsköpun og tækni í félagsþjónustu á Íslandi.
Efni ráðstefnunnar á erindi við starfsfólk og stjórnendur í velferðarþjónustu, hvort sem um er að ræða félags- eða heilbrigðisþjónustu. Ráðstefnan á einnig erindi við kjörna fulltrúa sem láta sig málið varða. Loks á ráðstefnan erindi við allan almenning því fyrr eða síðar munu flestir einstaklingar verða virkir notendur velferðartækni í einhverri mynd.


Ráðstefnan verður haldin í Hofi á Akureyri, dagana 4. – 5. júní næstkomandi. Hún hefst kl. 12.00 þann 4. júní og lýkur kl. 12.00 þann 5. júní.
Tungumál ráðstefnunnar verða enska, skandinavíska og íslenska.


Aðgangur er ókeypis.
http://www.velferdarraduneyti.is/veltek2014
Ráðstefnan er haldin á vegum velferðarráðuneytisins, í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina, á formennskuári Íslands í norrænu samstarfi.

Dagskráin í prentvænu formi fæst hér.