Fréttatilkynning frá BHM vegna flutnings málefna fatlaðra

BHM sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu miðvikudaginn 10. nóvember 2010 um réttindi og kjör starfsmanna vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Flutningur málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga er mikilvæg aðgerð í réttindabaráttu fatlaðs fólks fyrir jafnrétti og fullri þátttöku í íslensku samfélagi sem  Bandalag háskólamanna (BHM) styður heils hugar.  Þó að flutningur þessa mikilvæga málaflokks snerti mest fatlað  fólk og aðstandendur þeirra þá hefur hann einnig mikil áhrif á starfsvettvang þeirra 1500 starfsmanna sem sinna fjölbreyttum störfum sem þjónusta við fatlað fólk felur í sér.  Talsmenn þessara starfsmanna, stéttarfélög og heildarsamtök þeirra hafa því eðli málsins samkvæmt kappkostað að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna í þessu ferli.  Það hefur m.a. verið gert innan samráðshóps á vegum félagsmálaráðuneytisins.  Þar hafa stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra ásamt fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga  og Reykjavíkurborg, unnið að réttinda- og hagsmunamálum starfsmanna. 

Fram til loka síðasta árs gekk starf nefndarinnar vel þar sem unnið var að tilsettum markmiðum, þ.e. að  greina stöðu starfsmannamála fyrir og eftir væntanlegar breytingar.  Þegar í ljós að kom í lok janúar sl. að ágreiningur  var á milli aðila um grundvallarþætti á borð við félagafrelsi, starfsöryggi og að starfsmenn nytu sömu réttinda og opinberir starfsmenn höfðu árin 1990 og 1996 við yfirflutning á heilbrigðisþjónustu  og grunnskólanum, sigldi samstarfið í strand.  Ekki var boðað til fundar í 10 mánuði eða þar til gengið var að kröfu fulltrúa okkar og fundur boðaður 7. október.  Síðan þá hefur einn annar fundur verið haldinn en á honum lýsti fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Karl Björnsson framkvæmdastjóri, því yfir að ekki væri ástæða til að nefndin starfaði áfram, þar sem hún væri fallin á tíma.  Sveitarfélögin myndu því haga starfsmannamálum með þeim hætti sem þau kysu sjálf. Þessu til áréttingar dreifði Karl bæklingi til fundarmanna um væntanlegt starfsumhverfi starfsmanna.  Bæklingurinn hefur verið sendur öllum starfsmönnum málaflokksins, einnig þeim sem sveitarfélög hafa áður tilkynnt að ekki verði tryggð störf en í þeim hópi eru einkum sérfræðingar úr röðum BHM.  Vakti þessi uppákoma hörð viðbrögð fulltrúa stéttarfélaganna enda gert alfarið án vitundar þeirra. 

BHM lýsir vanþóknun sinni á þessari framkomu og krefst þess skilyrðislaust að vinna nefndarinnar til tryggingar á réttindum starfsmanna haldi áfram.  Þess er krafist að fullt tillit verði tekið til sjónarmiða stéttarfélaganna enda samræmast þau áður viðhöfðum vinnubrögðum hins opinbera þegar málefni hafa flust milli stjórnsýslustiga.  Annað er mismunun sem verður ekki liðin. 

Það er harmað að samráðsferlið skuli komið í þá erfiðu stöðu sem raun ber vitni og að Samband íslenskra sveitarfélaga  hafi klofið sig út úr samstarfinu á þessum tíma. 

Til eru mörg dæmi um yfirfærslu á verkefnum hins opinbera en ávallt hafa störf og launakjör hlutaðeigandi starfsmanna verið tryggð við slíkar breytingar.  BHM leggur til að nú verði horft til þeirra fordæma og allir aðilar ljúki þessu verkefni með farsæld og hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi.