Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2012–2014 er nú aðgengileg á vef velferðarráðuneytisins. Tillagan var unnin í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga um málefni fatlaðs fólks sem meðal annars kveður á um að sett skuli fram stefna í málefnum fatlaðs fólks, forgangsröðun verkefna, aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar.

Í tillögunni eru settar fram tímasettar aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mat á þjónustu.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði starfshópinn sem undirbjó þingsályktunartillöguna í júní 2011. Auk fulltrúa velferðarráðuneytisins áttu í honum sæti fulltrúar tilnefndir af hálfu Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður starfshópsins var Lára Björnsdóttir.

Í starfi sínu fundaði starfshópurinn með fötluðu fólki og fjölda fagaðila sem búa yfir þekkingu og reynslu á þeim málefnum sem voru til umfjöllunar. Einnig voru höfð til hliðsjónar störf annarra hópa og nefnda sem vinna að málefnum fatlaðs fólks í umboði velferðarráðherra, svo sem samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks, nefndar um réttindagæslu fatlaðs fólks, starfshóps um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks, verkefnisstjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð og starfshóps fimm ráðuneyta sem vinnur að undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Tekið af vef Velferðarráðuneytisins