BHM krefst samningsbundinnar eingreiðsluBHM krefst samningsbundinnar eingreiðslu (50.000) til handa fólki í fæðingarorlofi.

Meðal umsaminna kjarabóta í nýgerðum kjarasamningum aðildarfélaga BHM við opinbera vinnuveitendur var 50 þúsund króna eingreiðsla sem koma átti til greiðslu í júní.
Umdeilt hefur verið milli aðila hvort þessi greiðsla á að ná til launafólks í fæðingarorlofi, á þann veg að vinnuveitendur hafa lagst gegn því.
Bandalag háskólamanna (BHM) er ósammála þessari túlkun og telur þessa ráðstöfun sérlega ómálefnalega þegar horft er til opinberra vinnuveitenda, ekki síst ríkisins, í ljósi þess að eingreiðslan var greidd atvinnuleitendum og lífeyrisþegum. Viðbótarkostnaður ríkissjóðs við að láta eingreiðsluna einnig ná til nýbakaðra foreldra í fæðingarorlofi er smávægilegur í samanburði.
BHM telur það ekki sæmandi stjórnvöldum sem kenna sig við jöfnuð og félagshyggju að láta viðgangast að nýbakaðir foreldrar í hópi launamanna séu teknir út fyrir sviga hvað þessar kjarabætur áhrærir.
Bandalagið hafnar því alfarið að umsamin eingreiðsla af hálfu opinberra vinnuveitenda sé tafabót vegna samningslauss tímabils, enda höfnuðu viðsemjendur öllum kröfum BHM um afturvirkar kjarabætur. Sé þessi upphæð tafagreiðsla í samningum Alþýðusambandsins vegna þeirra þriggja mánaða sem félagsmenn ASÍ voru án kjarasamnings, ætti upphæðin hjá félagsmönnum BHM að vera margfalt hærri, enda voru þeir án kjarasamnings í rúm tvö ár.
BHM krefst þess að vinnuveitendur greiði launafólki í fæðingarorlofi samningsbundna 50 þúsund króna eingreiðslu og skilji þennan hóp ekki eftir óbættan hjá garði.
BHM er kunnugt um að félagsmönnum í fæðingarorlofi hefur verið synjað um þessa kjarabót.
Af því tilefni hefur bandalagið óskað eftir fundi með forsætisráðherra og ráðherrum fjármála og velferðarmála.  Því erindi hefur ekki verið formlega svarað enn.