Ályktun frá stjórn BHM 14. júní 2012

 
Ályktun frá stjórn BHM
14. júní 2012
 
Stjórn BHM lýsir þungum áhyggjum af stöðu háskólastigsins í íslensku menntakerfi, en Ísland er eina landið innan OECD sem ver minna fé til menntunar hvers nemanda á háskólastigi en á grunnskólastigi. Framlag á nemanda á háskólastigi er 25% undir meðaltali OECD-ríkjanna. Stjórn BHM telur þessar staðreyndir kalla á endurskoðun og endurskipulag í menntamálum á Íslandi, ekki síst í ljósi mikilvægis háskólamenntunar fyrir framþróun á vinnumarkaði, nýsköpun og hagvöxt.

Háskólar hafa undanfarin ár búið við aukið álag vegna fjölgunar nemenda á tímum aðhalds í rekstri og hafa framlög til háskóla verið skert umtalsvert frá hruni sem hlýtur að teljast öfugþróun þegar litið er til ársskýrslu OECD. Slíkar ráðstafanir bera vott um stefnuleysi í málefnum háskólastigsins.

Annað einkenni stefnuleysis og fjársveltis er óhófleg notkun illa launaðrar stundakennslu innan íslenskra háskóla. Það er krafa stjórnar BHM að mannaflaþörf í háskólum landsins verði metin og undirmálsgreiðslum til stundakennara hætt.

Stjórn BHM krefst þess að stjórnvöld setji gæðamál íslenskra háskóla í forgang við stefnumótun í mennta- og vinnumarkaðsmálum og þá sérstaklega rannsóknastarf sem er grundvöllur gæða í háskólastarfi og forsenda nýsköpunar og þróunar á vinnumarkaði.
 
 
Frekari upplýsingar veitir: Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, s: 899-2873