Ályktun frá aðalfundi BHM

Aðalfundur Bandalags háskólamanna, haldinn þann 30. apríl 2014, fagnar nýgerðum kjarasamningum aðildarfélaganna við sveitarfélög og Reykjavíkurborg. Í þeim voru stigin afgerandi skref í leiðréttingu á þeirri kjararýrnun háskólamenntaðra í opinberri þjónustu sem orðið hafði á undangengnum árum. BHM fagnar þeim leiðréttingum sem gerðar voru í kjarasamningum ríkisins við kennara í framhaldsskólum og háskólum. BHM hvetur stjórnvöld til þess að í yfirstandandi kjaraviðræðum milli ríkis og aðildarfélaga bandalagsins verði á óyggjandi hátt tekið tillit til mikilvægis framlags félagsmanna BHM á íslenskum vinnumarkaði. Þekking er ekki aðeins einn af hornsteinum íslensks atvinnulífs heldur byggir öll framtíðaruppbygging í landinu á öflun hennar, þróun og beitingu. Ísland má ekki við því að missa þekkinguna úr landi. BHM ítrekar áður kynntar kröfur um launaleiðréttingu í yfirstandandi kjaraviðræðum. Þekking er framtíðin, framtíðin er núna.